Helgin 28 og 29. apríl - List og gleði

Um helgina er hægt að njóta fjölbreyttra viðburða á dagskrá Listar án landamæra.

 

Í færslunni hér á undan er góð lýsing á sýningunni Fólk í mynd í Norræna húsinu sem opnar laugardaginn 28.apríl klukkan 15 (3).

 

Sýningarlok eru á sýningunni Þrívídd í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar má líta gullfallegar litlar kindur, Risastórt hrafnshreiður og alla vega 2 krumma, fugla og furðufugla og trjáfólk úr Álafosskvosinni ásamt fleira af gullfallegum listaverkum. Mælt er með að fólk skoði hana á Laugardeginum en á sunnudaginn er hætt við að mikið verði af fólki í Ráðhúsinu í e.k. móttöku, 

 

Við Suðumark, sýning Elínar S.M. Ólafsdóttur og Kristínar Gunnlaugsdóttur stendur yfir í Listasal Mosfellsbæjar og Hönnun fyrir börn er í Handverki og hönnun í Aðalstrætinu. Verk Ásgeir Vals Sigurðarsonar má skoða hjá samtökunum ´78 Laugavegi 3 og sýningu Óskar Teódórssonar og Brynjólfs Guðmundssonar má skoða í Vin á Hverisgötunni. Sýninguna Lækjarliti má svo skoða á Café Aroma í Hafnarfirðinum. Og einstakt handbragð og listaverk þeirra Gauta Ásgeirssonar og Guðrúnar Bergsdóttur má sjá í Þjóðminjasafninu á sýningunni Nál og hnífur  ásamt sýningunni 8 Heimar. 

 

 

 

Sýningarlok - Skjaldarmerkið hennar Skjöldu

 

mynd úr boðskorti.png                      list án landamæra lógó.jpg

 

Sýningunni  Skjaldarmerkið hennar skjöldu með verkum eftir Atla Viðar Engilbertsson lýkur sunnudaginn 29.apríl. 

Atli Viðar hefur á undanförnum árum verið afkastamikill fjöllistamaður, samið tónlist og ritverk og sýnt verk sín víða, meðal annars í Safnasafninu við Eyjafjörð. Verkin sem Atli Viðar sýnir nú í Hafnarborg eru lágmyndir og skúlptúrar, einkum úr pappa og öðrum endurnýttum hráefnum, en endurnýting hefur í gegnum tíðina verið sem rauður þráður í verkum hans.

Nánar um sýninguna hér

 


Fólk, fólk og fólk

Á morgun laugardag opnar lifandi sýning 11 listamanna kl.15 (3) í Norræna húsinu.

 Sýningin heitir ,,Fólk í mynd'' og er portrett sýning.

Áhugavert er að sjá hvernig hópur íslenskra listamanna nálgast portrett hefðina. Þau vinna með fjölbreytta tækni, útfrá ólíkum forsendum en að sama viðfangsefni.

Á sýningunni má sjá video portrett Snorra Ásmundssonar, Topp 10, verk eftir Bergþór Morthens þar sem sjá má þekkt andlit úr stjórnmálunum. Gígja Thoroddsen málar líka fræga og má sjá mynd af Haffa Haff og Michael Jackson ásamt mynd af geðlæknum í partýi. Aron Kale sýnir rauðhærða lögreglukonu og Sigga í Bónus, Erla Björk Sigmundsdóttir er ofursterk og saumar myndir í striga og býr til hnausþykka skúlptúra úr ull og garni. Hermann Guðjónsson smyrnar verk úr samfélagsumræðunni. Á sýningunni má sjá splunkunýtt verk af ófrískum Jóni Gnarr borgarstjóra. Hulda Vilhjálmsdóttir sýnir ný verk, yndis fögur verk af konum. Ísak Óli er með nýja seríu af áhugaverðu fólki og má þar nefna Hauk Morthens, Harald veðurfræðing, Evu Sólan, Tove Janson og Helga Hós. Kristján Ellert Arason saumar í striga og sýnir hér verk af Elton John, James Bond, Madonnu og söngvara Bay city Rollers sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. Ólöf Dómhildur sýnir djúphugul ljósmyndaverk og Sigrún Huld Hrafnsdóttir sýnir einstök portrett verk.

Á opnuninni ætlar listafólkið að troða upp og láta ljós sitt skína.

Um helgar fá gestir að spreyta sig á portrettinu í skemmtilegri smiðju og fá að gera sín eigin portrett undir handleiðslu listamanns. Eitthvað sem hentar allri fjölskyldunni. Þar verður sjónum beint að okkur, hvaða orð lýsa okkur og hvernig sjáum við okkur.

Opið er frá 12.00 - 17.00 þriðjudaga – sunnudaga og stendur sýningin til sunnudagsins 13. maí.


Máliþing: Fötlun og söfn í dag föstudag

Í dag er áhugavert málþing í Þjóðminjasafninu:

Málþing um Fötlun og söfn
Föstudaginn 27. apríl kl. 13-15:30

Á síðasta áratug hafa söfn farið að huga meira að aðgengi fyrir fatlaða í sýningum sínum og endurskoðað fyrri sjónarhorn varðandi framsetningu gripa sem tengjast fötlun. List fatlaðra listamanna hefur verið sýndur meiri áhugi og sums staðar hefur verið gert átak í að safna minjum sem snert...a líf fatlaðra einstaklinga. Á þessu málþingi verður athyglinni beint að þessum viðhorfsbreytingum og fjallað um ýmsar hliðar fötlunar í samhengi við safnastarf.

Dagskrá:
Þuríður Stefánsdóttir: Náin kynni
Baldvina Sigrún Sverrisdóttir: Myndmál sem tjáningarmiðill
Andrea Þormar: Rými fyrir alla?
Björn Karlsson: Geiri: Líf og list Ásgeirs Emilssonar
Þóra Sigurbjörnsdóttir: Merkingar: Söfn og samfélag skipta í lið
Bryndís Sverrisdóttir: Aðgengi fyrir alla á Þjóðminjasafni Íslands
Arndís Bergsdóttir: Að sjá okkur sjálf í menningarlegri mynd: Sjálfsmynd, réttindabarátta og framsetning fatlaðra á söfnum


Fimmtudagsfjör

Í dag opna tvær áhugaverðar sýningar í Þjóðminjasafninu
klukkan 15 (3)!

NÁL OG HNÍFUR & ÁTTA HEIMAR
(Sjá lýsingu í færslunni hér á undan

 Klukkan 17 (5) í dag verða þær Kristín Gunnlaugsdóttir og Elín Sigríður María Ólafsdóttir í Víðsjá á Rás1. Þær Kristín og Ella sýna í Listasal Mosfellsbæjar og heitir sýning þeirra VIÐ SUÐUMARK
Myndir frá sýningunni má sjá í albúmi hér á síðunni.


Lækjarlitir á miðvikudag - Nál og hnífur og Átta heimar á fimmtudag

Framundan eru áhugaverðar sýningar 

25. apríl, miðvikudagur.

Lækjarlitir
Tími: 14 (2)
Café Aróma, Verslunarmiðstöðin Fiörður, Fjarðagata 13 – 15 Hafnarfirði

www.redcross.is/laekur

Á sýningu Lækjar verða sýnd myndlistarverk sem  voru unnin í Læk á síðastliðnum vetri. Hluti verkanna voru unnin undir leiðsögn Ásu Bjarkar Snorradóttur myndlistarkonu og Ólafs Oddssonar sem kennt hefur tálgun í við. Sýnd verða olíumálverk og vatnslitamyndir. Einnig verða sýndir hlutir sem gerðir hafa verið úr þæfðri ull og tálgaðir í við. Sýnendur eru Smári Eiríksson, Kristinn Þór Elíasson, Svava Halldórsdóttir, Jónína Guðmundsdóttir, Guðrún Guðlaugsdóttir, Gyða Ólafsdóttir, Sigríður Ríkey Eiríksdóttir, Hrafnhildur Sigurbjartardóttir og  Þóroddur Jónsson. Sýningin stendur til 9. maí og er opin á opnunartíma kaffihúsins Café Aróma.

26.apríl Nál og hnífur 26.apríl Nál og hnífur3

26. apríl, fimmtudagur.

Nál og hnífur
Útsaumsmyndir Guðrúnar Bergsdóttur og útskurðarverk Gauta Ásgeirssonar
Tími: 15 (3)
Torg. Þjóðminjasafn Íslands, Suðurgata, 101 RVK
www.thjodminjasafn.is

Í Þjóðminjasafni Íslands er að finna fjöldan allan af listilega gerðum útsaumsverkum frá fyrri tímum. Guðrún Bergsdóttir býr til listaverk með nál, þræði og striga. Útsaumsverk hennar einkennast af sterkri hrynjandi lita og forma sem verða til samhliða vinnunni við útsauminn. Gauti Ásgeirsson vinnur verkin sín í tré. Hann sker út stórar fígúrur og minni hluti af mikilli list og færni – en útskurður á sér mjög langa hefð meðal þjóðarinnar, eins og sjá má á öllum þeim fjölda útskorinna gripa sem finna má í safninu.
Sýningin stendur til 13. maí 2012.

Átta heimar

Átta heimar
Tími: 15 (3)
Gangur. Þjóðminjasafn Íslands, Suðurgata, 101 RVK
www.thjodminjasafn.is

Sýning á verkum Inga Hrafns Stefánssonar, Guðmundar Stefáns Guðmundssonar, Halldóru Jónsdóttur, Sigurðar Reynis Ármannssonar, Grétu Guðbjargar Zimsen, Ásgeirs Ísaks Kristjánssonar, Gauta Árnasonar og Ólafs Þormars. Undanfarin ár hefur skólinn í samvinnu við símenntunarmiðstöð Fjölmenntar boðið upp á vinnustofu þar sem þátttakendur hafa unnið sjálfstætt að listsköpun sinni með aðstoð myndlistarmannanna Kristins G. Harðarsonar og Gerðar Leifsdóttur. Margir þátttakenda hafa verið í skólanum í sex ár á meðan sumir slógust í hópinn síðast liðið haust. Verkefni eru fjölbreytt og gefa áhugaverða innsýn inn í margslungna hugarheima. Sýning er opin til 13. maí 2012.


LIKE ; )

Kæru vinir okkar bíða ótal vinabeiðnir á facebook sem við getum ekki samþykkt sökum þess að vinalistinn má að hámarki vera 5000. Endilega farið á ,,LIKE´´síðuna okkar og fylgist með fréttum af hátíðinni þar. Bestu kveðjur ; )

 

LIKE síðan okkar á facebook: http://www.facebook.com/pages/List-án-landamæra


Njótið lista ; )

Nú er hafin ný og spennandi vika hjá List án landamæra.

 Kíkið á dagskrána HÉR!

IMG_3957[1]

Mynd frá opnun Atla Viðars í Hafnarborg

IMG_4034[1]

Mynd frá opnun Elínar S.M. Ólafsdóttur og Kristínar Gunnlaugsdóttur
í Listasal Mosfellsbæjar.


Laugardagur til lukku og lista og sunnudagur til sælu og sköpunar

Kæru vinir.

List án landamæra óskar ykkur góðrar helgar og hvetur ykkur til þess að njóta viðburða á dagskrá hátíðarinnar um helgina. Dagskrána í heild má sjá hér: www,issuu.com/hitthusid/docs/lal2012?mode=window&viewMode=doublePage. Eða hér hægra megin á síðunni. 


Laugardagur 21. apríl
 
Klukkan 11 opna fjölbreyttar listasýningar á bókasafninu á Akranesi. 
Sýningarnar standa til klukkan 14 (2).
Þar sýna meðal annars nemendur  myndlistaskólans á Akranesi, Smári jónsson, listamenn úr Borgarnesi, Endurhæfingamiðstöðin Hver og Fjöliðjan. 

Klukkan 13 (1) opnar sýningin Hönnun fyrir börn í Handverki og hönnun í Aðalstrætinu (Kraum er einnig í húsinu.) 
Þar má sjá púða og mjúkar verur frá Gylfaflöt. Tréleikföng frá Sólheimum og Ásgarði og litríkar perlukeðjur frá Iðjubergi.

Frá kl.13-17 (1-5) verður Skemmtidagskrá Átaks í Hinu Húsinu Pósthússtræti 3-5. (Athugið að aðgengi inn í húsið með lyftu er úr porti Hafnarstrætismegin). Þar verða kaffiveitingar til sölu á góðu verði og mikið fjör Sjá dagskrána á www.lesa.is.

Klukkan 15 (3) opnar sýningin Við Suðumark í Listasal Mosfellsbæjar. 
En hér er orðsending frá Listasalnum: 

Kæri listunnandi

Við viljum benda ykkur sérstaklega á sýninguna Við Suðumark sem verður haldin í Listasal Mosfellsbæjar og opnar 21. apríl kl. 15:00. Þar sýna saman listakonurnar Elín S. M. Ólafsdóttir (Ella) og Kristín Gunnlaugsdóttir teikningar, málverk og útsaum í striga. Verk beggja eru kraftmikil og tjáningarrík. Sýningin stendur til 11. maí.

Opið er alla virka daga frá 12:00 - 18:00, miðvikudaga frá 10:00 –

18:00 og laugardaga frá 12:00 – 15:00

 Kristín Gunnlaugsdóttir lærði á Ítalíu, íkonamálun og klassísk vinnubrögð málverksins. Hún bjó meðal annars í klaustri um tíma og nam hjá nunnureglu. Hún hefur getið sér gott orð fyrir íkonsprottin málverk sín, sem hafa bæði verið gerð með olíulitum og svo egg tempera þar sem litadufti og eggjarauðu er blandað saman. Myndefnið hefur oft og tíðum verið andlegs/trúarlegs eðlis, kyrrð og fegurð svifið yfir vötnum og mikil tæknileg færni í hávegum höfð. Nýverið tók Kristín nýjan pól í hæðina þar sem hún leitaði inná við og myndefnið varð meira ögrandi en áður og þannig sprengdi hún kyrrláta rammann sinn.

Elín S. M. Ólafsdóttir (Ella)  hefur mikið notað listina í sínum veikindum og hefur snert á flestum miðlum. Hún er mikil leikkona ásamt því að teikna og mála. Hún vinnur mikið með konur og gyðjur í verkum sínum sem eru mjög litrík. Verk Ellu eru mjög áhugaverð, spennadi og tjáningarrík. Verklag þeirra er mjög ólíkt, Ella vinnur fremur hratt og af meiri hvatvísi en Kristín sem aftur á móti er yfirveguð og öguð í vinnubrögðum. Kristín vinnur stór verk en Ella lítil.

Allir velkomnir og aðgangur ókeypis

Klukkan 15 (3). Opnar einnig sýningin Björgunin við Látrabjarg. Sýning með sjónlýsingu fyrir blinda og sjónskerta í Þjóðminjasafninu. Það er hluti af viðleitni Þjóðminjasafnsins til að auka aðgengi fyrir alla. Um sýninguna má lesa nánar áwww.thjodminjasafn.is 


Sunnudagur 22. apríl


Klukkan 12 opnar sýningin Tilraunastofa í Myndlistaskólanum í Reykjavík. Þar sýna Ólafía Mjöll Hönnudóttir, Hjördís Árnadóttir, Hulda Magnúsdóttir, Edda Heiðrún Backman og Sonja Sigurðardóttir í anddyri Myndlistaskólans en þær hafa unnið undir leiðsögn myndlistamannsins Margrétar H. Blöndal undanfarin misseri. 


Klukkan 16 er  BLINT BÍÓ í Bíó Paradís. 

Sunnudaginn 22. apríl kl 16:00 verður boðið í fyrsta sinn á Íslandi upp á blinda bíósýningu í samstarfi við List án Landamæra, Blindrafélagið og með stuðningi Barnamenningarhátíðar. Sýnd verður hin stórskemmtilega fjölskyldumynd Hetjur Valhallar með sjónlýsingum fyrir blinda og sjónskerta. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir! Ef fólk vill tryggja sér miða á sýninguna þá er hægt að nálgast miða hjá Bíó Paradís. Þess má geta að sýningin er fyrir alla og ef að fólk vill njóta hennar án þess að ,,sjá´´ myndina þá eru myrkvunar gleraugu í boði í miðasölunni



Hlutskipti/Hugskeyti & Háð og Spottar á föstudegi

HLUTSKIPTI/HUGSKEYTI 

Myndlistamennirnir Guðmundur Brynjólfsson og Óskar Theódórsson taka höndum saman og sýna verk sín í Vin. 

Báðir hafa þeir sýnt víða á ólíkum vettvangi og unnið lengi að list sinni.

Óskar gerir margbrotnar myndir af fólki og Guðmundur er expressíónískur og litaglaður. 

Sýningin stendur í tvær vikur 

 

Háð og spottar 

Boginn Gerðubergi 20. apríl – 22. júní 2012 

Hermann B. Guðjónsson  

 

Föstudaginn 20. apríl kl. 17.15 opnar sýning Hermanns B. Guðjónssonar í Boganum Gerðubergi.  

Á sýningunni Háð og spottar eru smyrnuð veggteppi sem Hermann hefur unnið á vinnustofunni á Hrafnistu þar sem hann er búsettur. Verk hans hafa vakið verðskuldaða athygli en þau sýna gjarnan þjóðkunnar persónur, svo sem stjórnmálamenn. Mörg þessara verka hefur Hermann gefið og eru þau varðveitt til að mynda á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu. Til að gera sýninguna sem veglegasta voru fengin að láni verk í eigu Forseta Íslands, Forsætisráðherra og annarra stjórnmálamanna. Auðvelt er að heillast af verkum Hermanns enda bera þau með sér fágað handbragð, smekkvísi og gott skopskyn.

Sýningin stendur til 22. júní og er opin virka daga kl. 11-17 og kl. 13-16 um helgar (athugið að lokað er um helgar í júní). Háð og spottar er hluti af listahátíðinni List án landamæra. 

Hermann Birgir Guðjónsson er  fæddur árið 1936 að Fremstuhúsum í Dýrafirði. Hann er sjálfmenntaður listamaður sem stundað hefur ýmis verkamannastörf í gegnum tíðina.  Eftir að Hermann lét af störfum hefur hann sinnt fjölbreyttu handverki af mikilli eljusemi, hann rýjar, heklar, smíðar, sker út í tré og hnýtir net svo nokkuð sé nefnt. Hermann hefur ríka sköpunargleði og fallegt handbragð auk þess sem gamansemi einkennir mörg verka hans. Teppin á sýningunni eru smyrnuð veggteppi, þ.e. unnin með sérstakri nál sem notuð er til að draga garnspotta í gegnum grófan stramma svo úr verður loðin rýja áferð. Hermann fær oft hugmyndir sýnar frá skopmyndum dagblaða. Heilli myndefni þeirra dregur hann upp teikningu með tússpenna á grófan stramma, velur mismunandi liti af garni af kostgæfni og klippir niður í spotta og hefst síðan handa við að smyrna veggteppið. Teppin hanga á fagurlega skreyttum trélistum sem Hermann smíðar og sker út sjálfur. 

Portrett eftir Hermann eru einnig á sýningunni Fólk í mynd – List án landamæra í Norræna húsinu 28. apríl – 13. maí 2012. 

 

 


Verið velkomin í Hafnarborg á sumardaginn fyrsta.

Skjaldarmerkið hennar Skjöldu –

Atli Viðar Engilbertsson sýnir í Hafnarborg

 Á sumardaginn fyrsta verður sýningin Skjaldarmerkið hennar Skjöldu með verkum eftir Atla Viðar Engilbertsson opnuð í Sverrissal Hafnarborgar.

 Sýningin er liður í listahátíðinni List án landamæra.

Atli Viðar hefur á undanförnum árum verið afkastamikill fjöllistamaður, samið tónlist og ritverk og sýnt verk sín víða, meðal annars í Safnasafninu við Eyjafjörð. 

Verkin sem Atli Viðar sýnir nú í Hafnarborg eru lágmyndir og skúlptúrar, einkum úr pappa og öðrum endurnýttum hráefnum, en endurnýting hefur í gegnum tíðina verið sem rauður þráður í verkum hans. 

Í tengslum við sýninguna verður starfrækt listsmiðja fyrir börn og fullorðna þar sem unnið verður með pappa. Listsmiðjan verður opin á sumardaginn fyrsta milli kl. 16 og 18, en þátttaka er ókeypis og opin öllum. Sýning Atla Viðars stendur til 29. apríl. Safnið er opið til kl. 21 á sumardaginn fyrsta líkt og alla fimmtudaga.

578843_2990604328021_1349502488_2136749_2088155919_n.jpg 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband