Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Kæru vinir Listar án landamæra. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, afhenti fulltrúum Listahátíðarinnar List án landamæra Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða 16.maí, á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar. Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á málefnum sem varða  mannréttindi og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. 

Aðstandendur hátíðarinnar, listafólk, skipuleggjendur og stjórn ásamt hirðskáldi hátíðarinnar kom saman og tók á móti þessum virðingarvotti.

Hér á eftir er ávarp sem flutt var við móttöku verðlaunana.   


Við móttöku mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar

 í Höfða, 16. maí 2012

Þakkarávarp framkvæmdastýru Listar án landamæra

 

Kæru  Borgarstjóri, borgarstjórn, mannréttindaráð Reykjavíkurborgar og kæru vinir sem eruð hér saman komin í dag.

Fyrir hönd Listahátíðarinnar Listar án landamæra  þakka ég kærlega þennan heiður. Okkur þykir mjög vænt um þennan virðingarvott sem okkur er sýndur

Ég tek á móti þessum verðlaunum fyrir hönd allra þeirra sem hafa komið að hátíðinni síðustu 10 árin og gert hana að því sem hún er í dag.  Listafólk, skipuleggjendur og styrktaraðilar ykkar er heiðurinn.

List án landamæra er grasrótarhátíð sem á tilveru sína að þakka  skapandi fólki. Hún er hátíð þess mögulega,hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla. 

Í þessari grasrót hafa tekið þátt fjölmargir aðilar, samtök, hópar og einstaklingar um allt land.  Í stjórn hátíðarinnar eru fulltrúar Landssamtakana Þroskahálpar, Hins hússins, Öryrkjabandalags Íslands, Átaks, félags fólks með þroskahömlun, Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar, Bandalags íslenskra listamanna og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Við viljum koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. 

Sýnileiki ólíkra einstaklinga er nefnilega afar mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni því hann hefur bein áhrif á jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum.

Fögnum fjölbreytileikanum í stað þess að fylgja

sjálfkrafa svokölluðu normi og samþykkja óskrifaðar reglur samfélagsins gagnrýnislaust.

Hellum okkur í að endurvinna viðurkenndar hugmyndir og brjótum upp rammana þvi að rammar normsins geta háð  okkur án þess að við verðum þess vör og svipt okkur möguleikanum til þess að sjá nýja hluti, nýjar leiðir og nýja sköpun. 

Við sem erum hér í dag getum tekið þá ákvörðun með pompi og pragt að setja upp gagnrýnisgleraugun góðu og endurmeta. Við getum ákveðið að rýna til gagns  og leita markvisst að tækifærunum sem búa í okkur sjálfum en ekki takmörkunum og gerum það sama við aðra.

Fjölbreytnin í mannlífinu og í manneskjunum, listunum og lífinu  er kostur sem nýtist okkur til nýrra uppgötvana og betra og skemmtilegra lífs.

Á hátíðinni í ár var ung kona sem veitti mér mikinn innblástur og mig langar að segja ykkur frá henni. Þessi unga kona heitir Ásta Hlöðversdóttir og tók hún þátt í söngkeppni á dagskrá Listar án landamæra.

Hún fór á kostum og vakti mikla lukku meðal áheyrenda. Það sem er svo frábært við þátttöku Ástu er að rödd hennar heyrðist ekki því hún er með lömuð raddbönd. Hún túlkaði lagið á annan hátt og gerði það fantavel. 

Ásta er fyrirmynd og kennir okkur að sjá tækifæri en ekki takmarkanir.


Það þarf ekki rödd til að syngja, ekki fætur til að dansa heldur er þetta allt spurning um viðhorf.


Takk kærlega fyrir þessa  fallegu og góðu viðurkenningu og ykkar góða starf hjá mannréttindaráði og takk fyrir stuðninginn sem er okkur mikil hvatning.

 

Reykjavík, 16.maí 2012

Margrét M. Norðdahl


Umfjöllun í sjónvarpinu!

Á RÚV var viðtal í Kastljósinu við þau Gauta Ásgeirsson og Guðrúnu Bergsdóttur sem saman sýna á Þjóðminjasafninu.

Hér er tengill á viðtalið:

http://www.ruv.is/sarpurinn/kastljos/10052012/list-an-landamaera-2012

Hér eru svo svipmyndir frá sýningunni Fólk í mynd sem stendur yfir í Norræna húsinu

http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/02052012/lokaskot-folk-i-mynd

Flott listafólk!


HELGIN 12 og 13 maí.

1. 

Myndin er af Huldu Vilhjálmsdóttur og Gígju Thoroddsen, listakonum, við opnun sýningarinnar Fólk í mynd.


Listahátíðin List án landamæra hefur nú staðið yfir frá 18.apríl. Á tímabilinu verið á sjötta tug viðburða um allt land.

Um helgina eru sýningarlok á nokkrum sýningum sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Í Norræna húsinu lýkur sýningunni Fólk í mynd, samsýningu 11 listamanna. Þau eru Aron Kale, Bergþór Morthens, Erla Björk Sigmundsdóttir, Gígja Thoroddsen – GÍA, Hermann Birgir Guðjónsson, Hulda Vilhjálmsdóttir, Ísak Óli Sævarsson, Kristján Ellert Arason, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Sigrún Huld Hrafnsdóttir og Snorri Ásmundsson. Leiðsögn verður um sýninguna á laugardaginn kl.15.

Sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur og Elínar S.M. Ólafsdóttur Við Suðumark  í Listasal Mosfellsbæjar lýkur einnig um helgina. Þar má sjá hrá og fersk verk Elínar og risastór útsaumsverk Kristínar.

Einstök útskurðarverk Gauta Ásgeirssonar og útsaumsverk Guðrúnar Bergsdóttir er hægt að sjá í Þjóðminjasafninu um helgina. En sýningu þeirra NÁL OG HNÍFUR  lýkur sunnudaginn 13.maí. Á Þjóðminjasafninu má einnig sjá sýninguna 8 heimar, sýning nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík.

 Sýning Ásgeirs Vals Sigurðssonar stendur yfir hjá samtökunum ´78 við Laugaveg 3. Henni lýkur 12.maí.


Á landsbyggðinni má sjá fjölbreytta sýningar. Á Egilsstöðum er sýningin Betri bær- List án landamæra í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð.

  Í menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík er sýning á mósaíverkum notenda Miðjunnar.

Í Hofi á Akureyri stendur yfir sýning Skógarlundar og Fjölmenntar og Ull og endurvinnsla er í geðræktarmiðstöðinni Setrinu á Húsavík.

Ekki missa af frábærum sýningum og viðburðum!!!! Kíkið í dagskrána hér á síðunni  og grípið tækifærið og sjáið verk eftir frábært listafólk.


Mynda- og upplýsinga síða Listar án landamæra á facebook

Kæru vinir.

Endilega kíkið á mynda og upplýsinga síðu Listar án landamæra á Facebook.

Svokallaða ,,LIKE'' síðu.  Þar er mikið af myndum frá List án landamæra í gegnum árin og við setjum inn myndir frá viðburðum á dagskrá hátíðarinnar 2012 smátt og smátt.

Hér er slóðin á Like síðuna: http://www.facebook.com/pages/List-%C3%A1n-landam%C3%A6ra/329690037048895

Vinasíðan okkar er fullbókuð en hægt er að verða s.k. áskrifandi að síðunni.

IMG_3973

Atli Viðar og góður gestur á opnun sýningarinnar Skjaldarmerkið hennar Skjöldu í Hafnarborg.


Hvað er að gerast???

Síðustu vikur hafa verið frábærar. Hver viðburður á fætur öðrum hefur verið virkilega ánægjulegur.

Allt listafólk og skipuleggjendur geta verið verulega stolt af verkum sínum!

 Framundan í vikunni eru nokkrir skemmtilegir viðburðir:

- Þriðjudaginn 8.maí er tónleikar Fjölmenntar í Reykjavík í Salnum í Kópavogi kl.18 (6).

- Fimmtudag og föstudag 10 og 11 mái er opið hús og myndlistasýning í Skógarlundi á Akureyri. frá hálf 10 - hálf 4 báða dagana.

- Við Suðumark sýning Kristínar Gunnlaugsdóttur og Elínar S.M. Ólafsdóttur í Listasal Mosfellsbæjar hefur verið framlengd til laugardagsins 12.maí

 - Hönnun fyrir börn stendur yfir hjá Handverki og hönnun í Aðalstrætinu í Reykjavík. Sýningarlok eru 16.maí.

- Sýning Ásgeirs Vals stendur yfir hjá samtökunum ´78´við Laugaveg 3. Henni lýkur 12.maí

- Sýninguna Lækjarliti má sjá í Café Aroma. Sýningunni lýkur miðvikudaginn 9.maí.

- Sýningu Gauta Ásgeirssonar og Guðrúnar Bergsdóttir NÁL OG HNÍFUR í Þjóðminjasafninu lýkur sunnudaginn 13.maí

- Sýningunni Fólk í mynd í Norræna húsinu lýkur einnig á sunnudaginn. En á laugardaginn verður Vatnsmýrarhátíð og leiðsögn um sýninguna.

- Smiðja verður í Norræna húsinu á laugardag og sunnudag frá 12-16 (12-4).

- Sýning nemenda í Fjölmennt stendur til 16.maí í húsnæði Fjölmenntar við Vínlandsleið 14.

- Á Egilsstöðum er fjölbreytt sýning í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð

- Í menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík er sýning á mósaíverkum notenda Miðjunnar.

- Í Hofi á Akureyri stendur yfir sýning Skógarlundar og Fjölmenntar

Ull og endurvinnsla er í geðræktarmiðstöðinni Setrinu á Húsavík.

 Ekki missa af frábærum sýningum og viðburðum!!!! Kíkið í dagskrána hér hægra megin á síðunni og sjáið nánar um viðburðina.

30.apríl Blómstrandi list í Fjölmennt

  

 


Helgin 5 og 6.maí

Um helgina er margt að gerast á dagskrá Listar án landamæra

 Á Laugardaginn er opnunarhátíð á Austurlandi. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá á sviði, kaffi, sýningar og leiksýning um kvöldið. Kíkið á dagskrána í dagskrárbæklingnum eða í skránni sem er í viðhengi með þessari færlsu.

Brúðkaupsdraumur í Frumleikhúsinu
og fjölmenningardagur í Duus húsum í Reykjanesbæ.

Tónstofan í Hörpu
Tónstofa Valgerðar býður uppá  tónleika í Hörpuhorninu, laugardaginn 5. maí kl: 15:00 (3). Hörpuhornið er staðsett á annarri hæð við hliðina á Eldborgarsalnum.

Á tónleikunum leika nemendur Tónstofunnar.  Bjöllukórinn, einleikarar og söngvarar munu flytja íslensk og erlend þjóðlög, dægurlög og klassíska tónlist.

Smiðja í Norræna húsinu
Listamaðurinn Magnús Helgason mun leiða nýstárlega smiðju ætlaða allri fjölskyldunni í tengslum við sýninguna Fólk í mynd. Á smiðjunni skoðum við okkur sjálf og myndina af okkur. Smiðjan er opin 12.00-16.00

Fjöldi sýninga er opinn um allt land!

Nál og hnífur og 8 heimar í Þjóðminjasafninu

Við Suðumark í Listasal Mosfellsbæjar

Fólk í mynd í Norræna húsinu

Ásgeir Valur í samtökunum ´78

Lækjarlitir í Kaffi Aroma

Hlutskipti/Hugskeyti í Vin

Sýning í Hofi á Akureyri

Njótið helgarinnar!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Þarf rödd til að syngja?

Þarf fætur til að dansa eða rödd til að syngja?

Í gær, þriðjudag 3.maí,  var haldin árleg Söngkeppni Tipp Topp.
26 keppendur tóku þátt í keppninni sem heppnaðist vel í alla staði.

Tara Þöll Danielsen Imsland, sigurvegari frá því í fyrra og keppandi í Eurosong á Írlandi fyrir hönd Íslands, sat í dómnefnd ásamt þeim Önnu Katrínu Þórarinsdóttur, söngkonu í Húsbandi Hins Hússins og Eysteini Sigurðssyni, leikara og starfsmanni Hins Hússins.

Atkvæði úr salnum giltu hlutfallslega á móti mati dómnefndar. Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu 3 sætin og sérstök verðlaun voru veitt fyrir atriði sem höfðu mjög mikið skemmtanagildi.

Í fyrsta sæti varð Helgi Fannar með lagið Sweet Transvestide úr Rocky Horror söngleiknum. Í öðru sæti varð Marta Sóley Helgadóttir með lagið Mundu mig með Jóhönnu Guðrúnu og því þriðja lenti Erla Kristín með lagið Snert Hörpu mína. Sérstök verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið fékk Elín Björk sem flutti lagið Jón er kominn heim.

Dómnefnd tók það fram að það hefði verið mjög erfitt að velja sigurvegara og að mörg atriði hefðu verið einstaklega vel flutt. Keppendur sem túlkuðu textann á sinn hátt, dönsuðu vel og voru með frumlegan flutning.

DSC_0099

Einn þátttakenda í keppninni, hún Ásta Hlöðversdóttir tók þátt með laginu Evacuate the Dancefloor með Cascada. Hún fór á kostum og vakti mikla lukku meðal áheyrenda sem klöppuðu henni lof í lófa. Það sem er svo frábært við þátttöku Ástu er að rödd hennar heyrðist ekki, hún túlkaði lagið á annan hátt og gerði það fantavel.

Rödd hennar heyrðist kannski ekki en ljós hennar skein.

Ásta er fyrirmynd og kennir okkur að sjá tækifæri en ekki takmarkanir. 
Það þarf ekki rödd til að syngja! 


Við óskum öllum þátttakendum til hamingju með vel heppnaða keppni og ekki síst sigurvegaranum Helga Fannari sem hlaut bikar til eignar og farandgrip sem nafnið hans verður grafið í.
Helgi Fannar 1.saeti

Miðjan og Tipp Topp í dag miðvikudag 2.maí

Í dag opnar sýning í Menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík kl.14 (2).

Í kvöld er söngkeppni Tipp Topp í Hinu Húsinu.

 Kíkið á dagskrána:  http://issuu.com/hitthusid/docs/lal2012?mode=window&viewMode=doublePage


Geðveikt kaffihús & handverk á baráttudegi verkalýðsins

1. maí, þriðjudagur.

Geðveikt kaffihús Hugarafls og handverksmarkaður í Hinu húsinu
Tími: 13 – 17 (13-5)
Hitt húsið, Pósthússtræti 3-5, 101 RVK
www.hugarafl.is, www.asgardur.is,
Athugið að hjólastóla inngangur er um port Hafnarstrætismegin!

Á Geðveiku kaffihúsi er kaffið klikkað og baksturinn brjálæðislega góður. Boðið er upp á jákvæðar geðgreiningar og skemmtiatriði.
Glæsilegt handverk og listmunir verða til sölu á handverksmarkaði. Iðjuberg, Ásgarður og Bjarkarás bjóða glæsilegar vörur sínar til sölu.
Hrós, knús og jákvæðar hugsanir í boði fyrir gesti og gangandi. 


Blómstrandi sköpun í Fjölmennt

30. apríl, mánudagur.

Blómstrandi list og söngsveitin Plútó í Fjölmennt
Tími: 17-18:30 (5-hálf 7)
Fjölmennt, Vínlandsleið 14
www.fjolmennt.is

Í Fjölmennt, símenntunar og þekkingarmiðstöð, eru margir við nám í skapandi greinum. Í dag opnar sýning á verkum nemenda í listgreinum og hin frábæra söngsveit Plútó ætla að syngja fyrir gesti og gangandi. Allir velkomnir!

 Sýnendur eru: Rut Ottósdóttir, Kristján Kristjánsson, Magnús Ragnarsson, Halldóra María Skowro, Linda Rós Lúðvíksdóttir, Sigríður Hrefna Sigurðardóttir, Halla Kjartansdóttir, Ragnhildur Bjarnadóttir, Dagný Harðardóttir, Ingibjörg Emma Guðmundsdóttir, Ingvar Þór Ásmundsson, Gísli Steinn Guðlaugsson, Björgvin Axel Ólafsson, Lilja Valgerður Jónsdóttir, Andri Guðnason, Gísli Steindór Þórðarson, Ragnar Már Ottósson, Birna Gunnarsdóttir, Edith Thorberg, Hafdís Matthíasdóttir, Anna Sveinlaugsdóttir, María Strange, Elín S. M. Ólafsdóttir, Bjarni Haraldur Sigfússon og Gréta Guðbjörg Zimsen. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband