Óttinn við fötlun er fatlandi - Ármann Jakobsson

Óttinn við fötlun er fatlandi

 

Þegar ég var átta ára kom í ljós að ég var nærsýnn. Ári seinna þurfti ég sterkari gleraugu og enn sterkari urðu þau árið þar á eftir. Á þessum tíma varð ég stundum andvaka af hræðslu við blindu. Ég var handviss um að þetta stefndi í þá átt. Ekki dró úr hræðslunni þegar elsta dóttirin í Húsinu á sléttunni fór smám saman að sjá æ verr og dag einn var hún blind. Þá hugsaði ég: Bráðum verð ég líka blindur.

Nærsýni er ekki skilgreind sem fötlun á 21. öldinni. Síðan ég komst að því að ég yrði líklega ekki blindur strax hefur mér aldrei þótt hún vera fötlun. En samt er hún það auðvitað; það vita allir sem hafa brotið gleraugun óvænt og ekki átt önnur tiltæk.

En stundum lék ég mér samt að því sem barn að taka af mér gleraugun og setja þau upp aftur; allt í einu hvarf hið beina form götuljósanna en í staðinn komu ljóshnettir. Þannig gat ég látið formin birtast og hverfa. En þetta skilja þessir ónærsýnu ekki.

Ótti er drifkraftur fordóma. Ótti við fötlun getur leitt til þess að við framandgerum fatlaða manneskju. Slíkir fordómar birtist sjaldnast í hatri eða illvilja. En við sem þykjumst ófötluð hneigjumst mörg til að hugsa: fatlaða manneskjan er ekki eins og ég.

En kannski er hún ekki öðruvísi. Kannski er ekki til mannvera sem er að engu leyti óheil, vanheil, brotin, skert. Kannski er hræðsla við fötlun aðeins yfirborð alvarlegrar hræðslu við að horfast í auga við eigin galla. Kannski er það ímyndun að við séum heil. Kannski eru fatlaðir ekkert öðruvísi. Einn er heyrnarlaus en annar er skilningslaus og þann þriðja skortir ímyndunarafl. Hver er mesta fötlunin?

Líklega væri það verðugt verkefni nútímamanna sem vilja sigrast á fordómum gegn fötlun að segja sem svo: hin fullkomna manneskja er goðsögn. Við erum öll óheil. Og þó erum við heil því að manneskjan er gölluð en heilbrigð, hún lifir með göllum sínum, stórum og smáum. Stundum eru þeir smávægilegir eins og gleraugu sem kosta að vísu tíma og örlitla fyrirhöfn, svo lítilfjörlega að sá sem notar gleraugu hættir að muna eftir henni. Aðrar fatlanir er ekki hægt að leiða hjá sér og sumar eru svo alvarlegar að þær hljóta að voma yfir öllu.

En samt er fötluð manneskja ekki jafn stórkostlega framandi og margir hinna ófötluðu halda. Það er ekki nauðsynlegt að flokka fólk í fatlað og ófallað. Ef til vill væri nær að spyrja alla: Hver er þín fötlun?

 

Ármann Jakobsson

IMG_0993 

Gígja Thoroddsen var listamaður Listar án landmæra 2007. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband