Að koma heim og saman, eftir Þorvald Þorsteinsson
10.1.2013 | 11:05
Þorvaldur Þorsteinsson skrifaði ávarp í dagskrá Listar án landamæra 2006.
Myndin er af Sigrúnu Árnadóttur, listamanni hátíðarinnar 2006.
AÐ KOMA HEIM OG SAMAN
Þau landamæri menningar og viðhorfa sem vísað er til í yfirskrift þessarar
ágætu hátíðar eru um margt snúnari að kljást við en hin opinberu mörk sem
skipta landsvæðum í pólitískar, trúarlegar eða efnahagslegar heildir. Hin
hefðbundnu landamæri hafa þann kost að vera sýnileg og skýrt afmörkuð. Þar
fer sjaldnast milli mála hvar línan er dregin og í hvaða tilgangi og því
auðvelt að greina við hvað er að eiga, reynist á annað borð ástæða til að
féfengja skiptinguna.
Viðhorf okkar til næsta manns, okkar heimatilbúnu landamæri, eru hins
vegar hvergi nærri eins vel kortlögð og vandséð á yfirborðinu hverjir
teljast í reynd fullgildir þegnar í okkar eigin mannfélagi og hverjir
ekki. Samkvæmt kortinu sem við sýnum hvort öðru er hvergi svo mikið sem
þröskuld að finna. Þar hafa allir jafnan rétt til náms og þroska á
lífsleiðinni, mannauður allur er í hávegum hafður og enginn útskúfaður
sakir skoðana, aldurs, fötlunar eða útlits. Þannig viljum við gjarnan að
land okkar sé kortlagt þó svo að það komi ekki alveg heim og saman við
veruleikann og daglegt atferli okkar. Eins þótt ljóst sé að um þvert og
endilangt samfélagið liggi rammgerðir múrar fordóma og vantrausts og að
óttaslegni landamæravörðurinn sem stendur vaktina, er enginn annar en við
sjálf. Þessir heimagerðu múrar umlykja reyndar ekki einungis einstaklinga
og hópa en ganga iðulega í gegnum okkar eigin hjörtu og einangra
sköpunargleði okkar, barnaskap, einlægni og elsku, m.ö.o. þann hluta
mennskunnar sem við óttumst að skerði reglufestu dagsins og spilli vegferð
okkar í hörðum heimi.
Þau landamæri sem viðhorf okkar skapa fyrir tilstilli fordóma og
vantrausts í eigin garð og annarra hafa valdið meiri usla í mannlífinu en
allar gaddavírsgirðingar sögunnar til samans. Það er því ómetanlegt að fá
tækifæri til að rýna í gegnum glufurnar í eigin múr og leyfa fölvskalausri
sköpunargleði þeirra sem þar eru fyrir handan að hrífa okkur. Heyra óminn
af tónlistinni, greina bjarmann af litunum og birtuna í hlátrinum. Finna
okkar dýpstu strengi hljóma með sömu tíðni og þess sem menning okkar og
viðhorf hefur úthýst.
Ég sting upp á því að við þiggjum að taka í höndina sem hér er rétt fram
fyrir tilstilli þess eljusama hóps sem stendur að List án landamæra.
Leyfum henni að lyfta okkur yfir þröskuldinn, draga okkur í gegnum múrinn.
Og hver veit nema undrið gerist. Undrið sem sköpunargleðin,
barnaskapurinn, einlægnin og elskan nærir. Undrið sem felst í því að vera
leidd yfir þröskuldinn, í gegnum múrinn og vakna upp handan óttans, í
okkar eigin óskipta hjarta. Já, hver veit nema þessi hógværa hylling
mennskunnar verði til þess að vísa okkur veginn heim úr sjálfskipaðri
útlegð hins óttaslegna landamæravarðar. Þar sem við göngumst að lokum við
sjálfum okkur og öðrum sem einni órofa heild.
Komum heim og saman.
Þorvaldur Þorsteinsson