LENNON OG BAKTUS - Föstudag kl.17 (5) í Listasal Mosfellsbæjar

25.apríl Lennon og Baktus

Listasalur Mosfellsbæjar í samstarfi við List án landamæra kynnir með ánægju sýninguna Lennon og Baktus sem er samsýning sjö listamanna. Sýnendur eru, Sigga Björg Sigurðardóttir, Ísak Óli Sævarsson, Sigrún Huld Hrafnsdóttir, Davíð Örn Halldórsson, Baldur Geir Bragason, Gauti Ásgeirsson og Aron Eysteinn Halldórsson,


Heiti sýningarinnar, Lennon og Baktus, er tákn fyrir svokallað “odd couple” eða óvenjulegt par.
Á listahátíðinni List án landamæra hafa ólíkir aðilar unnið saman að mismunandi listtengdum verkefnum. Markmið hátíðarinnar er að koma á framfæri list og menningu fólks með fötlun, koma á samstarfsverkefnum á milli hópa og einstaklinga og auka fjölbreyttni menningarlífs í landinu.

Samstarf Ísaks og Siggu Bjargar hefur ekki leitt til sameiginlegs verks. Þau hafa hist einu sinni í viku í vetur og teiknað saman, hlustað á tónlist og horft á teiknimyndir. Þau hafa í raun verið að undirbúa samsýningu frekar en sameiginlegt verk.

Davíð og Sigrún hefja vinnu við verkin hvort í sínu lagi, en botna svo hálfkláraðar myndir hvors annars. Þau hafa einbeitt sér að skissuvinnu sem endar sem veggmynd.
Allt er til sýnis. Frágangurinn í rýminu er hið eiginlega samstarf. Allt í ramma og allt upp á vegg. Davíð og Sigrún hafa áður unnið saman og sýndu þá í Norræna húsinu á vegum Listar án landamæra.

Viðhafnarfáni er sameiginlegt verk þeirra Baldurs, Arons og Gauta. Þeir hafa hist í handverkstæðinu Ásgarði og unnið að verkinu saman. Fáninn er þó ekki fáni frekar en segl eða bara óræð mynd. Stöngin er hins vegar frumleg smíð þeirra þriggja og gerir skemmtilega grín að viðburðum eins og sýningarhaldi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband