2007
25.6.2007 | 11:11
Fjórðu hátíð Listar án landamæra er nú lokið. Hún stóð yfir frá 26. apríl til 16. maí. 27 atburðir fóru fram, flestir á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Akureyri, Selfossi, Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum. Þátttakendum og gestum fjölgar með hverju árinu og hátíðin verður sífellt viðameiri.Á dagskránni voru myndlistasýningar, bæði samsýningar og einkasýningar, tónleikar, leiklist, handverkssýningar, gjörningar, ljóðaflutningur og stuttmyndakeppni. Þátttakendur voru frá 6 ára aldri og uppúr, einstaklingar með fötlun og án fötlunar.
-Það er hægt að tala vel og lengi um alla atburðina þar sem margt skemmtilegt var á boðstólum. Þátttakendur eiga hrós skilið fyrir frábært starf, okkur skortir ekki hæfileikaríkt fólk á öllum sviðum lista. Ég ætla að stikla á stóru hvað varðar samstarfsverkefni og þau atriði sem boðið var uppá á landsbyggðinni. Einnig ætla ég að víkja aðeins að gjörningunum: Tökum höndum saman , sem framinn var við Reykjavíkurtjörn
- Samstarfs verkefni voru bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Alls voru 24 samstarfsverkefni, sum þar sem ýmist var unnið saman í lengri eða skemmri tíma , önnur þar sem fatlaðir og ófatlaðir tróðu upp saman. Þar á meðal voru Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða í Unun) og Linda Rós Pálmadóttir söngkona frá Fjölmennt sem fluttu lög á setningarathöfn hátíðarinnar í Ráðhúsinu, við góðar undirtektir, enda miklar söngdívur þar á ferð. Blikandi stjörnur fengu KK til liðs við sig og fluttu þau tvö lög saman í Leiklistarveislu í Borgarleikhúsinu. Annað lagið var gullmolinn hans KK, When I think of angels.... Elísabet Yuka Takefusa söng það og má segja að ekki hafi verið bak án gæsahúðar eða hvarmur án társ á meðan á því stóð.
-Í Norræna húsinu var haldin stór myndlistasýning þar sem sjö pör myndlistafólks, alls 17 sýnendur, unnu saman verk fyrir sýninguna og var útkoman vægast sagt frábær. Þar voru fatlaðir og ófatlaðir, þekktir og óþekktir myndlistamenn saman komnir. Þetta er ein af örfáum sýningum sinnar tegundar en vonandi á þeim eftir að fjölga. Við eigum mikið af frábæru listafólki úr röðum fólks með fötlun, hverra verk eiga fullt erindi í almennt menningar umhverfi.
-Halaleikhópurinn og Þjóðarsálin komu fram í Borgarleikhúsinu og eru þeir dæmi um hópa þar sem samstarf fatlaðra og ófatlaðra er samfellt yfir árið. En til annarra samstarfsverkefna er blásið, sérstaklega í tilefni Listar án landamæra. Það er erfitt að gera öllum atburðunum skil án þess að fara í upptalningu, því fer ég ekki nánar út í samstarfsverkefnin en langar að nefna hversu frábærlega kynnar stóðu sig á hátíðinni Þar má nefna Unni Ösp og Ólaf Snævar í Ráðhúsinu, Björgvin Frans og Ásu Björk í Borgarleikhúsinu og Björgvin Frans og Steinunni Ásu á lokahátíðinni í Gullhömrum.
-Það var sérstaklega gaman að sjá hvað hópar á landsbyggðinni eru kröftugir í sínu starfi. Á Selfossi söng Söngsveit Langjökuls, sem starfar hjá Fjölmennt, inn á geisladisk, lög Valgeirs Guðjónssonar. Valgeir lék með sveitinni á útgáfutónleikum á Selfossi þann 5. maí við góðar undirtektir.
- Mexikóskt þema var ráðandi á sýningu á Amtsbókasafninu á Akureyri. Þar var afrakstur fjölbreytts og skemmtilegs myndlistarstarfs Fjölmenntar til sýnis. Kjólar listakonunnar Fridu Khalo voru notaðir til innblásturs og einhverjir þeirra voru endurgerðir. Sannkölluð karnival stemming var ríkjandi. Það var greinilega suður - amerísk stemmning á fleiri stöðum á landsbyggðinni. Á Egilsstöðum kenndu dansarar frá Costa Rica latínó dans við góðar undirtektir. Í gamla sláturhúsinu var leirlistasýningin Líf í Leir. Tónleikar voru í Egilsstaðakirkju þar sem flutt var verkið: Kvartett fyrir endalok tímans.
-Í Vestamannaeyjum var framinn gjörningur undir yfirskriftinni Allir eru einstakir. Hann fólst í því að búa til sameiginlegt tákn um mikilvægi okkar allra og að allir hafi áhrif hver á sinn máta. Stórt autt karton var rammað inn í Íþróttamiðstöðinni og síðan var öllum bæjarbúum boðið að koma og setja fingrafar sitt á plakatið í öllum regnbogans litum.
-Annar gjörningur fyrir almenning var framinn við Reykjavíkurtjörn þann 28. apríl. Höfundur að þeim gjörningi er Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir, fulltrúi Öryrkjabandalags Íslands í stjórn Listar án landamæra. Hann bar heitið ´´Tökum höndum saman. Þar var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur heldur var miðað að því að fá almenning til að koma að Reykjavíkurtjörn og mynda hring utan um hana sem tákn um samstöðu ólíkra einstaklinga og hópa. Fólk gæti þar sýnt samstöðu en jafnframt speglað sjálft sig í tjörninni, horfst í augu við sjálft sig og aðra. Frábær hugmynd, og þó að ekki hafi náðst að mynda hring mættu þar um 300 manns til þátttöku og skemmtu sér og nutu samveru og útivistar. Úti á Tjörninni voru tveir árabátar og í þeim listafólk, harmonikkuleikarar léku lög og ljóð voru flutt á táknmáli á meðan ræðararnir börðust við öldurnar.Það er stefnt að því að fremja slíkan gjörning aftur, og jafnvel aftur og aftur, eða þar til næst að mynda heilan hring um tjörnina. Kannski að hringurinn sé tákn fyrir þjóðfélagið, þegar hringnum er náð verði stóru skrefi til jafnréttis náð?
-Í Norræna húsinu stóð Rannsóknarsetur í Fötlunarfræðum fyrir fyrirlestrarröð sem bar heitið Menning, listir, fötlun. Þar fluttu íslenskir og erlendir fræðimenn og rithöfundar bráðskemmtileg erindi. Einn af fyrirlesurunum var Ármann Jakobsson en hann ritaði jafnframt ávarp í dagskrárbækling hátíðarinnar undir yfirskriftinni: Óttinn við fötlun er fatlandi. Mig langar að vitna í ávarpið en þar segir Ármann: ....... Kannski eru fatlaðir ekkert öðruvísi. Einn er heyrnarlaus en annar er skilningslaus og þann þriðja skortir ímyndunarafl. Hver er mesta fötlunin?
-Já þegar stórt er spurt......
-Við erum öll gjörn á að flokka fólk í fyrirfram ákveðin hólf, hólf sem hamla sköpun og búa til sýnilega og ósýnilega þröskulda. Við viljum þröskuldana burt, og það hjálpar að fólk úr ólíkum hólfum komi saman, vinni saman og sýni saman. Samstarf fatlaðra og ófatlaðra er því mikilvægt á hátíð sem þessari, og einnig samstarf fólks með ólíkar fatlanir. Við viljum koma listafólki með fötlun á framfæri. Það er brýnt enda er mikið af ótrúlega hæfileikaríku fólki sem á fullt erindi út í hið almenna menningarumhverfi.Við viljum líka örva fólk úr röðum fatlaðra til þess að njóta menningar og sækja menningaratburði.
-Menning er mannréttindi. Aðgengi að menningu er mikilvægt, byggjum huglægar skábrautir og P-merkjum pláss í menningarumhverfinu.
-List án landamæra er komin til að vera og verður haldin að ári. Nú er bara að bretta upp ermar og drífa sig í undirbúning, ja alla vega svona eftir sumarfríið.
-Allir sem hafa áhuga á þátttöku í hátíðinni á næsta ári geta sett sig í samband í síma eða með tölupósti.
- Símanúmer: 691-8756, Netfang: listanlandamaera@gmail.com
Bestu kveðjur, Margrét M. Norðdahl.