Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar

Kæru vinir Listar án landamæra. Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, afhenti fulltrúum Listahátíðarinnar List án landamæra Mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar við hátíðlega athöfn í Höfða 16.maí, á mannréttindadegi Reykjavíkurborgar. Mannréttindaverðlaunin eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Markmiðið með mannréttindadeginum er að vekja athygli á málefnum sem varða  mannréttindi og á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. 

Aðstandendur hátíðarinnar, listafólk, skipuleggjendur og stjórn ásamt hirðskáldi hátíðarinnar kom saman og tók á móti þessum virðingarvotti.

Hér á eftir er ávarp sem flutt var við móttöku verðlaunana.   


Við móttöku mannréttindaverðlauna Reykjavíkurborgar

 í Höfða, 16. maí 2012

Þakkarávarp framkvæmdastýru Listar án landamæra

 

Kæru  Borgarstjóri, borgarstjórn, mannréttindaráð Reykjavíkurborgar og kæru vinir sem eruð hér saman komin í dag.

Fyrir hönd Listahátíðarinnar Listar án landamæra  þakka ég kærlega þennan heiður. Okkur þykir mjög vænt um þennan virðingarvott sem okkur er sýndur

Ég tek á móti þessum verðlaunum fyrir hönd allra þeirra sem hafa komið að hátíðinni síðustu 10 árin og gert hana að því sem hún er í dag.  Listafólk, skipuleggjendur og styrktaraðilar ykkar er heiðurinn.

List án landamæra er grasrótarhátíð sem á tilveru sína að þakka  skapandi fólki. Hún er hátíð þess mögulega,hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla. 

Í þessari grasrót hafa tekið þátt fjölmargir aðilar, samtök, hópar og einstaklingar um allt land.  Í stjórn hátíðarinnar eru fulltrúar Landssamtakana Þroskahálpar, Hins hússins, Öryrkjabandalags Íslands, Átaks, félags fólks með þroskahömlun, Fjölmenntar, símenntunar og þekkingarmiðstöðvar, Bandalags íslenskra listamanna og Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Markmið hátíðarinnar er að auka gæði, gleði, aðgengi, fjölbreytni og jafnrétti í menningarlífinu. Við viljum koma list fólks með fötlun á framfæri og koma á samstarfi á milli fatlaðs og ófatlaðs listafólks. 

Sýnileiki ólíkra einstaklinga er nefnilega afar mikilvægur, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni því hann hefur bein áhrif á jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum.

Fögnum fjölbreytileikanum í stað þess að fylgja

sjálfkrafa svokölluðu normi og samþykkja óskrifaðar reglur samfélagsins gagnrýnislaust.

Hellum okkur í að endurvinna viðurkenndar hugmyndir og brjótum upp rammana þvi að rammar normsins geta háð  okkur án þess að við verðum þess vör og svipt okkur möguleikanum til þess að sjá nýja hluti, nýjar leiðir og nýja sköpun. 

Við sem erum hér í dag getum tekið þá ákvörðun með pompi og pragt að setja upp gagnrýnisgleraugun góðu og endurmeta. Við getum ákveðið að rýna til gagns  og leita markvisst að tækifærunum sem búa í okkur sjálfum en ekki takmörkunum og gerum það sama við aðra.

Fjölbreytnin í mannlífinu og í manneskjunum, listunum og lífinu  er kostur sem nýtist okkur til nýrra uppgötvana og betra og skemmtilegra lífs.

Á hátíðinni í ár var ung kona sem veitti mér mikinn innblástur og mig langar að segja ykkur frá henni. Þessi unga kona heitir Ásta Hlöðversdóttir og tók hún þátt í söngkeppni á dagskrá Listar án landamæra.

Hún fór á kostum og vakti mikla lukku meðal áheyrenda. Það sem er svo frábært við þátttöku Ástu er að rödd hennar heyrðist ekki því hún er með lömuð raddbönd. Hún túlkaði lagið á annan hátt og gerði það fantavel. 

Ásta er fyrirmynd og kennir okkur að sjá tækifæri en ekki takmarkanir.


Það þarf ekki rödd til að syngja, ekki fætur til að dansa heldur er þetta allt spurning um viðhorf.


Takk kærlega fyrir þessa  fallegu og góðu viðurkenningu og ykkar góða starf hjá mannréttindaráði og takk fyrir stuðninginn sem er okkur mikil hvatning.

 

Reykjavík, 16.maí 2012

Margrét M. Norðdahl


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband