HELGIN 12 og 13 maí.
11.5.2012 | 14:53
Myndin er af Huldu Vilhjálmsdóttur og Gígju Thoroddsen, listakonum, við opnun sýningarinnar Fólk í mynd.
Listahátíðin List án landamæra hefur nú staðið yfir frá 18.apríl. Á tímabilinu verið á sjötta tug viðburða um allt land.
Um helgina eru sýningarlok á nokkrum sýningum sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.
Í Norræna húsinu lýkur sýningunni Fólk í mynd, samsýningu 11 listamanna. Þau eru Aron Kale, Bergþór Morthens, Erla Björk Sigmundsdóttir, Gígja Thoroddsen GÍA, Hermann Birgir Guðjónsson, Hulda Vilhjálmsdóttir, Ísak Óli Sævarsson, Kristján Ellert Arason, Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir, Sigrún Huld Hrafnsdóttir og Snorri Ásmundsson. Leiðsögn verður um sýninguna á laugardaginn kl.15.
Sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur og Elínar S.M. Ólafsdóttur Við Suðumark í Listasal Mosfellsbæjar lýkur einnig um helgina. Þar má sjá hrá og fersk verk Elínar og risastór útsaumsverk Kristínar.
Einstök útskurðarverk Gauta Ásgeirssonar og útsaumsverk Guðrúnar Bergsdóttir er hægt að sjá í Þjóðminjasafninu um helgina. En sýningu þeirra NÁL OG HNÍFUR lýkur sunnudaginn 13.maí. Á Þjóðminjasafninu má einnig sjá sýninguna 8 heimar, sýning nemenda við Myndlistaskólann í Reykjavík.
Sýning Ásgeirs Vals Sigurðssonar stendur yfir hjá samtökunum ´78 við Laugaveg 3. Henni lýkur 12.maí.
Á landsbyggðinni má sjá fjölbreytta sýningar. Á Egilsstöðum er sýningin Betri bær- List án landamæra í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð.
Í menningarmiðstöð Þingeyinga á Húsavík er sýning á mósaíverkum notenda Miðjunnar.
Í Hofi á Akureyri stendur yfir sýning Skógarlundar og Fjölmenntar og Ull og endurvinnsla er í geðræktarmiðstöðinni Setrinu á Húsavík.
Ekki missa af frábærum sýningum og viðburðum!!!! Kíkið í dagskrána hér á síðunni og grípið tækifærið og sjáið verk eftir frábært listafólk.