Hlutskipti/Hugskeyti & Háð og Spottar á föstudegi
19.4.2012 | 21:54
HLUTSKIPTI/HUGSKEYTI
Myndlistamennirnir Guðmundur Brynjólfsson og Óskar Theódórsson taka höndum saman og sýna verk sín í Vin.
Báðir hafa þeir sýnt víða á ólíkum vettvangi og unnið lengi að list sinni.
Óskar gerir margbrotnar myndir af fólki og Guðmundur er expressíónískur og litaglaður.
Sýningin stendur í tvær vikur
Háð og spottar
Boginn Gerðubergi 20. apríl 22. júní 2012
Hermann B. Guðjónsson
Föstudaginn 20. apríl kl. 17.15 opnar sýning Hermanns B. Guðjónssonar í Boganum Gerðubergi.
Á sýningunni Háð og spottar eru smyrnuð veggteppi sem Hermann hefur unnið á vinnustofunni á Hrafnistu þar sem hann er búsettur. Verk hans hafa vakið verðskuldaða athygli en þau sýna gjarnan þjóðkunnar persónur, svo sem stjórnmálamenn. Mörg þessara verka hefur Hermann gefið og eru þau varðveitt til að mynda á Bessastöðum og í Stjórnarráðinu. Til að gera sýninguna sem veglegasta voru fengin að láni verk í eigu Forseta Íslands, Forsætisráðherra og annarra stjórnmálamanna. Auðvelt er að heillast af verkum Hermanns enda bera þau með sér fágað handbragð, smekkvísi og gott skopskyn.
Sýningin stendur til 22. júní og er opin virka daga kl. 11-17 og kl. 13-16 um helgar (athugið að lokað er um helgar í júní). Háð og spottar er hluti af listahátíðinni List án landamæra.
Hermann Birgir Guðjónsson er fæddur árið 1936 að Fremstuhúsum í Dýrafirði. Hann er sjálfmenntaður listamaður sem stundað hefur ýmis verkamannastörf í gegnum tíðina. Eftir að Hermann lét af störfum hefur hann sinnt fjölbreyttu handverki af mikilli eljusemi, hann rýjar, heklar, smíðar, sker út í tré og hnýtir net svo nokkuð sé nefnt. Hermann hefur ríka sköpunargleði og fallegt handbragð auk þess sem gamansemi einkennir mörg verka hans. Teppin á sýningunni eru smyrnuð veggteppi, þ.e. unnin með sérstakri nál sem notuð er til að draga garnspotta í gegnum grófan stramma svo úr verður loðin rýja áferð. Hermann fær oft hugmyndir sýnar frá skopmyndum dagblaða. Heilli myndefni þeirra dregur hann upp teikningu með tússpenna á grófan stramma, velur mismunandi liti af garni af kostgæfni og klippir niður í spotta og hefst síðan handa við að smyrna veggteppið. Teppin hanga á fagurlega skreyttum trélistum sem Hermann smíðar og sker út sjálfur.
Portrett eftir Hermann eru einnig á sýningunni Fólk í mynd List án landamæra í Norræna húsinu 28. apríl 13. maí 2012.